Innlent

Þarf aðeins pólitískan vilja til að viðhalda stjórnarsamstarfi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra. MYND/GVA

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir það einungis spurningu um pólitískan vilja að ríkisstjórnarflokkarnir tveir haldi áfram samstarfi sínu. Þetta kemur fram á heimasíðu Björns. Nafni hans, Björn Ingi Hrafnsson, oddviti framsóknarmanna í borgarstjórn, segir hins vegar á sinni heimasíðu úrslit kosninganna kalla á að Framsóknarflokkurinn endurmeti sína stöðu.

Á heimasíðu sinni segir Björn Bjarnason hugmyndir vinstri manna um minnihlutastjórn með stuðningi framsóknarmanna einkennast af draumórum. Hann telur ekkert eigi að koma í veg fyrir að núverandi stjórnarmynstur haldi áfram og vísar til þess að áður hafi ríkisstjórnir verið myndaðar með eins manns meirihluta. Aðeins þurfi pólitískan vilja hjá forystumönnum flokkanna til að tryggja áframhaldandi samstarf.

Björn Ingi bendir hins vegar á það á sinni heimasíðu að ósigur Framsóknarflokksins í nýliðnum kosningum hafi verið sá versti í sögu flokksins. Hann segir það vera áfall að hvorki Jón Sigurðsson, formaður flokksins, né Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, hafi náð kjöri. Björn Ingi segir að við þessar aðstæður þurfi flokkurinn að hefja nauðsynlega naflaskoðun og hefja endurreisn.

Sjá heimasíðu Björns Bjarnasonar hér.

Sjá heimasíður Björns Inga Hrafnssonar hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×