Innlent

Málefnalegri kosningabarátta gæti skýrt minni kjörsókn

Höskuldur Kári Schram skrifar
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur.
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur. MYND/365

Minni átök milli flokka og málefnalegri kosningabarátta gæti skýrt minni kjörsókn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur að mati Baldurs Þórhallssonar, dósents í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann segir erfitt að meta hvort minni kjörsókn henti einum flokki betur en öðrum.

„Það var mikil kjörsókn fyrir fjórum árum. Því kæmi það ekki á óvart þótt að kjörsókn yrði minni nú," sagði Baldur Þórhallsson, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við Vísi. „Í síðustu kosningum voru meiri átök milli leiðtoga flokkanna sem magnaði upp spennu. Baráttan núna er málefnalegri. Það er hins vegar ómögulegt að segja til um hvort að einn flokkur hagnist meira á minni kjörsókn en annar."

Kjörsókn í Reykjavíkurkjördæmi norður klukkan 21 var 64,94 prósent sem er tæplega níu prósentustigum minna en á sama tíma fyrir fjórum árum. Alls höfðu 28.425 kosningabærra manna í kjördæminu neytt atkvæðisréttar síns í kjördæminu klukkan 21. Í Reykjavíkurkjördæmi suður er kjörsóknin nokkuð betri en þar höfðu 30.477 manns kosið klukkan 21. Það er 70,24 prósenta kjörsókn en árið 2003 var kjörsóknin í kjördæminu 76,11 prósent á sama tíma.

Baldur segir minnkandi kjörsókn hér á landi einnig vera í takt við almenna þróun á Vesturlöndum. „Í allri Vestur-Evrópu er minnkandi kjörsókn. Það kemur því heldur ekki á óvart að Ísland fylgi þeirri þróun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×