Innlent

Geysispennandi kosningasjónvarp framundan

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Undirbúningur kosningasjónvarpsins er nú á lokaspretti og starfsfólk stöðvar 2 um allt land er í startholunum fyrir útsendinguna sem hefst klukkan níu. Sigríður Guðlaugsdóttir heimsótti myndverið á Lynghálsi, en þaðan verður fylgst náið með framvindu mála fram á rauða nótt.

Tugir starfsmanna stöðvarinnar vinna við útsendinguna í kvöld auk tíu tökuliða víðs vegar um landið sem sækja viðbrögð almennings og frambjóðenda.

Þrotlaus vinna liggur að undirbúningi kosningasjónvarpsins og allir hafa lagst á eitt.

Kosningasérfræðingar stöðvarinnar munu taka púlsinn á nýjustu tölunum reglulega og ýmsir koma í heimsókn í myndverið, meðal annars formenn flokkanna.

Kristján Már Unnarsson fréttamaður segir aðalatriðið við kosningarnar vera tölurnar sjálfar. Hann segir kosningarnar í ár gætu verið mest spennandi í áratugi. Fylgishrun eins flokks gæti haft áhrif á glæstan sigur annars. Allt komi þetta í ljós í kvöld og tölunum verði skilað eins fljótt og auðið er.

Í ár verður nýjustu tölum frá kjörstjórnum varpað fram með nýjum hætti. Elín Sveinsdóttir framkvæmdastjóri kosningasjónvarpsins segir nýja og spennandi tækni notaða til að sýna tölurnar í nýjum sýndarveruleika. Það sé í fyrsta sinn sem það sé gert á Íslandi.

Og það er ekki bara ný tækni í útsendingunni sjálfri. Kosningavefur Vísis er sá fullkomnasti sem sést hefur hér á landi.

Hallgrímur Thorsteinsson er kosningavefstjóri Vísis. Hann segir framsetninguna vera myndræna, þannig að þegar tölur séu lesnar upp fari þær beint inn í grunninn og myndir birtist af þingmönnum sem eru inni á hverjum tíma.

Útsendingin kosningasjónvarpsins hefst klukkan 21 á eftir Stelpunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×