Innlent

Ofbeldi algengt í starfi lögreglumanna

Nærri helmingur lögreglumanna hefur orðið fyrir ofbeldi í starfi, samkvæmt nýrri rannsókn. Um fjórðungi lögreglumanna hefur verið hótað ofbeldi utan vinnutíma vegna starfa sinna.

Niðurstöður rannsóknarinnar byggja á könnun sem gerð var vorið 2005 en í henni voru lögreglumenn spurðir um ofbeldi og hótanir sem þeir höfðu upplifað vegna starf síns síðustu fimm árin.

Niðurstöðurnar sýna að um 70% starfandi lögreglumanna hefur verið hótað, um 43% lögreglumanna hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi án meiðsla og 40% fyrir ofbeldi sem leiddi til smávægilegra eymsla. Um 15% hafa hins vegar orði fyrir ofbeldi sem leiddi til stórvægilegra eymsla og um 4% fyrir ofbeldi sem leiddi til alvarlegra áverka.

Um fjórðungur lögreglumanna eða 26% hafði verið hótað ofbeldi utan vinnutíma og 15% lögreglumanna sögðust hafa lent í því að einhverjum í fjölskyldu þeirra væri hótað.

Í langflestum tilfellum eða 93% tilfella voru árásarmennirnir undir áhrifum áfengis og ofbeldið átti sér oftast stað á föstudögum og laugardögum.

Ólafur Örn Bragason, sálfræðingur og einn skýrsluhöfunda, segir að ofbeldið geti haft áhrif á þá sem fyrir því verða þegar þeir lenda aftur í sambærilegum aðstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×