Innlent

Vilja aukið fé til að hækka laun hjúkrunarfræðinga

Fulltrúaþing Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga skorar á fjármálaráðherra að veita aukið fé til heilbrigðisstofnana svo hægt sé að hækka laun hjúkrunarfræðinga. Þá lýsir þingið yfir verulegum áhyggjum af fyrirsjáanlegum skorti á hjúkrunarfræðingum og skorar á stjórnvöld að bregðast við því með því að efla hjúkrunarnám í landinu.

Í ályktunum sem samþykktar voru á fulltrúaþinginu er bent á að bráðnauðsynlegt sé að halda í vel menntaða og þjálfaða hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum og þá þurfi laun og starfsumhverfi stofnana að stuðla að eðlilegri nýliðun innan stéttarinnar.

Enn fremur er bent á að efla þurfi hjúkrumarfræðideildir við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Fjölgun námsplássa í samtals 153 dugi einfaldlega ekki til að bæta núverandi skort á hjúkrunarfræðingum heldur muni skorturinn aukast næstu ár. Þá þurfi sérstakt átak til að fjölga kennurum í hjúkrunarfræði.

Fulltrúaþingið fagnar hins vegar áformum stjórnvalda um fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða um 375 á næstu árum. Sú fjölgun kalli hins vegar á fjölgun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og því þurfi heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að skilgreina betur þá hjúkrunarþjónustu sem veita skuli á hjúkrunarheimilum. Fagleg sjónarmið verði lögð til grundvallar í þeirri vinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×