Innlent

Stoðtækjafræðingar fá löggildingu

Siv Friðleifsdóttir og fulltrúar Félags stoðtækjafræðinga.
Siv Friðleifsdóttir og fulltrúar Félags stoðtækjafræðinga.

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, undirritaði í dag reglugerð um löggildingu stoðtækjafræðinga þar sem kveðið er á um menntun, réttindi og skyldur stoðtækjafræðinga. Fulltrúar Félags stoðtækjafræðinga voru viðstaddir undirskrift reglugerðarinnar en félagið hefur barist fyrir löggildingu starfsins um árabil.

Samkvæmt reglugerðinni geta aðeins þeir sem fengið hafa starfsleyfi heilbrigðisráðherra og hafa lokið viðurkenndu námi í stoðtækjafræði kallað sig stoðtækjafræðinga og starfað sem slíkir hér á landi. „Sama gildir um þá sem heilbrigðisráðherra staðfestir að hafi leyfi til að starfa sem stoðtækjafræðingur í landi sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu," segir í tilkynnningu frá ráðuneytinu. Um 10 stoðtækjafræðingar eru starfandi á Íslandi í dag.

Starf stoðtækjafræðinga felst í gerð, viðhaldi og eftirliti stoðtækja en með stoðtæki er átt við vélrænan eða tæknilegan búnað sem er liður í meðferð sjúkdóma eða aðlögunar útlima. Stoðtækjafræðingar starfa á eigin ábyrgð en eru í starfi sínu háðir faglegu eftirliti Landlæknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×