Innlent

Ómar vísar alfarið á bug að hafa valdið umhverfisspjöllum

Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar vísar því alfarið á bug að hafa valdið umhverfisspjöllum með gerð flugvallar í grennd við Kárahnjúka. Hann segist vera með öll tilskilin leyfi sem til þurfi vegna vallarins. Sveitastjórn Fljótsdalshéraðs kannar nú málið vegna kvartana sem bárust henni fyrir skömmu.

Smári Þórhallsson sér um dreifbýlis- og hálendismál innan sveitastjórnarinnar og hann segir ummerki á svæðinu ekki hafa verið könnuð til hlítar en málið sé í skoðun. Kvartað hafi verið undan því að Ómar Ragnarsson hafi valtað svæði á Sauðamel og málað steina til að afmarka flugbraut. Það er völlurinn, sem Ómar notaði þegar hann bauð í flugferðir yfir Kárahnjúkasvæðið í fyrrasumar. Ómar vísar því alfarið á bug að hafa valdið umhverfisspjöllum með gerð flugvallarins.

Ómar segir að flugvellir líkt og hann lét gera séu einnig við Veiðivötn og Herðubreiðarlindir. Eftir frostlyftingu eins vetrar verði svæðið nákvæmlega eins og það var áður.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×