Innlent

Stefnt að opinberu hlutafélagi um flugflota Gæslunnar

Til athugunar er að stofna opinbert hlutafélag utan um flugrekstur Landhelgisgæslunnar, en í morgun var skrifað undir kaupsamning á nýrri flugvél fyrir Gæsluna upp á 2,1 milljarð króna. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra telur dagar Gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli séu senn taldir og þá komi helst til greina að flytja starfsemina á Keflavíkurflugvöll.

Dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra undirrituðu í morgun kaupsamning á nýrri flugvél fyrir Landhelgisgæsluna fyrir 2,1 milljarð króna. Flugvélin er smíðuð af kanadíska fyrirtækinu Bombardier af gerðinni Dash 8-Q300 og verður afhent í júlí 2009 um svipað leyti og nýtt varðskip bætist í flota Gæslunnar. Flugvélinni er hins vegar breytt af kanadíska fyrirtækinu Field Aviation sem selur Landhelgisgæslunni flugvélina.

Flugvélin verður öll hin fullkomlegasta og segir Georg Lárusson að um algera byltingu sé að ræða í flugvélakosti Gæslunnar. Með þessari vél komast á m.a. á ný samskipti við gagnabanka sem landhelgisgæslan hefur aðgang að.

Joar Gronlund aðstoðarforstjóri Field aviation, segir að flugvélin sé sú 21 í röðinni sem framleidd er. Allur tækjabúnaður sé uppfærður og því sé Landhelgisgæslan að fá það besta sem í boði er.

Það var einnig skrifað undir árangurssrtjórnarsamning milli Gæslunnar og dómsmálaráðuneytisins í dag, þar sem meðal annars er gengið út frá að kannað verði að stofna opinbert hlutafélag um flugrekstur Gæslunnar til að skapa meiri sveigjanleika um reksturinn.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að ef þetta reynist hagkvæmt verði þetta gert, en það komi ekki til greina að hans hálfu að einkavæða þennan rekstur.

Þegar Háskólinn í Reykjavík hefur byggt á flugvallarsvæðinu í Reykjavík, þrengir mjög að aðstöðu Landhelgisgæslunnar á flugvellinum. Dagar hennar þar eru því sennilega taldir. Dómsmálaráðherra segir að þá hljóti Keflavíkurflugvöllur helst að koma til greina sem framtíðarstaður fyrir flugflota Gæslunnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×