Innlent

Óvissan slæm fyrir skjólstæðinga SÁÁ

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/GVA

Æskilegra hefði verið að nýundirritaður þjónustusamningur SÁÁ við ríkið næði til lengri tíma en næstu áramóta að sögn framkvæmdastjóra hjá SÁÁ. Hann segir óvissuna mjög slæma fyrir skjólstæðinga samtakanna. Samtökin undirrituðu í dag samkomulag við annars vegar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og hins vegar fjármálaráðuneytið um framlengingu þjónustusamnings við ríkið fram að næstu áramótum. Upphaflegur þjónustusamningur var frá ársbyrjun 2002 til árloka 2005.

„Við óskuðum eftir því að samningurinn væri til lengri tíma," sagði Ari Matthíasson, einn þriggja framkvæmdastjóra SÁÁ, í samtali við Vísi. „Það voru bara ekki til meiri peningar á fjárlögum."

Samkvæmt samninginum sem undirritaður var í dag mun SÁÁ fá eingreiðslu að fjárhæð 80 milljónir frá ríkinu á þessu ári. Samningurinn gildir til áramóta en þá er stefnt að því að nýr þjónustusamningur taki gildi.

Ari segir halli á rekstri sjúkrahúss SÁÁ hafa numið 100 milljónum á síðasta ári og stefni í 120 milljónir á þessu ári. Fjárhæðin sem samtökin fá við undirritun samningsins núna komi í veg fyrir að takmarka verði þjónustu en mun fleiri hafa nýtt sér þjónustu samtakanna en áætlanir gerðu ráð fyrir.

„Við stefnum að því að hefja viðræður að nýju næsta haust. Það var mikilvægt að taka strax á þessum hallarekstri ef ekki átti að skerða þjónustu við sjúklinga. Æskilegast hefði þó verið að samningurinn væri til lengri tíma en fram að næstu áramótum. Óvissan er mjög slæm fyrir skjólstæðinga og yfirstjórn SÁÁ."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×