Innlent

Menntaðir leikskólakennarar aldrei fleiri

Menntaðir leikskólakennarar eru hlutfallslega fleiri nú en nokkru sinni áður síðan Hagstofan hóf að safna slíkum upplýsingum saman árið 1998. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Þriðjungur allra starfsmanna sem sinna uppeldi og menntun barna í leikskólum með leikskólakennarapróf.

Auk þess hafa 0,7 prósent starfsfólks lokið diplómanámi í leikskólakennarafræðum og tæp sex prósent hafa aðra uppeldismenntun. Alls hefur því um 40 prósent starfsfólksins lokið námi á sviði uppeldisfræða.

Tölur Hagstofunnar sýna að rétt rúmlega fimm þúsund manns störfuðu við leikskóla á Íslandi í fyrra og hafði þeim fjölgað um ríflega sex prósent frá árinu 2005. Það er töluvert meiri fjölgun en á milli tveggja síðustu ára þar á undan þegar fjölgunin var 0,7 prósent. Taka verður tilliti til þess að leikskólabörnum fjölgaði líka óvenjumikið frá árinu áður, eða um 2,1 prósent.

Brottfall starfsmanna á milli áranna 2005 og 2006 var rúm 24 prósent sem er nokkru minna en árið áður þegar brottfallið var 25,8 prósent. Mest ber á brottfalli meðal ófaglærðra starfsmanna og í þeim hópi hættu hlutfallslega flestir sem starfa við ræstingar, eða rúmt 41 prósent. Það er þó töluvert minna en árið á undan þegar það var nærri 51 prósent.

Þá leiða tölur Hagstofunnar í ljós að rúmlega fimm prósent starfsmanna á leikskólum er yfir sextugu og hefur hlutfall þeirra aukist ár frá ári frá árinu 2002. Flestir starfsmenn leikskólanna eru hins vegar á aldrinum 30-39 ára eins og árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×