Innlent

Orri Vigfússon hlýtur Goldman umhverfisverðlaunin

Orri Vigfússon.
Orri Vigfússon. MYND/AB
Orri Vigfússon, formaður formaður verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF), hlýtur Goldman umhverfisverðlaunin í ár. Verðlaunin fær Orri fyrir baráttu sína fyrir verndun laxastofnsins í Norður Atlantshafi. Í tilkynningu frá Goldman stofnuninni segir að áratuga baráttu Orra hafi komið í veg fyrir útrýmingu laxastofnsins í Norður Atlantshafi.

Orri Vigfússon stofnaði verndarsjóð villtra laxastofna í Norður Atlantshafinu (NASF) á áttunda áratug síðustu aldar. Frá árinu 1989 hefur sjóðurinn safnað um 35 milljónum Bandaríkjadala eða tæpum tveimur milljörðum íslenskra króna en sjóðurinn er notaður til að greiða útgerðum til að veiða ekki úr laxastofninum.

Þá hefur Orri einnig fyrir hönd NASF barist ötullega gegn reknetum þeim sem notuð eru víða til laxveiða. Fram kemur í tilkynningu frá Goldman stofnuninni að á síðustu fimmtán árum hafi NASF náð að draga úr útahfsveiðum á laxi um 75 prósent.

Goldman umhverfisverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1990 en það var mannvinurinn Richard N. Goldman og kona hans Rhoda H. Goldman sem stofnuðu til verðlaunanna. Um útnefningar sér alþjóðlegur hópur manna sem í eru meðal annars fulltrúar umhverfisverndarsamtaka.

Verðlaunin verða veitt formlega í San Francisco í Bandaríkjunum annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×