Innlent

Höggmyndasýning í húsagarði í Árbæ

Höggmyndasýning var opnuð í dag í garði einbýlishúss í Árbæjarhverfi í Reykjavík. Sýningin er meðal annars hugsuð fyrir göngufólk á leið um Elliðaárdal enda stendur garðurinn við einn göngustíginn.

Í húsagarði við Hábæ 41, rétt neðan Árbæjarkirkju, var fjöldi fólks saman kominn í dag. Húsráðendur, þau Guðrún Gunnarsdóttir myndlistarmaður og Stefán Thors skipulagsstjóri, drógu fána að húni enda stóð mikið til. Það var verið að opna myndlistarsýningu. Guðrún segist með þessu framtaki vilja auðga menninguna í Árbænum. Þau hafi þennan stóra og mikla garð sem henti vel til að sýna skúlptúra.

Fyrsti listamaðurinn til að sýna í þessu opna sýningarrými er Örn Þorsteinsson myndhöggvari. Hann sýnir þarna verk steypt úr áli, eftir steinmyndum sem hann hjó úr fjörugrjóti í Skagafirði, og má sjá úr þessu ýmsar kynjaskepnur sem allt eins gætu verið ættaðar úr hafinu. Garðurinn er við vinsælan göngustíg, rétt ofan Elliðaánna, og þarna verða verkin til sýnis næstu tvo mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×