Innlent

Byggt upp í sömu mynd

Hreinsun á brunarústunum við Lækjartorg hafa verið stöðvaðar á meðan ákveðið er hvernig verður staðið að enduruppbyggingu á svæðinu. Borgaryfirvöld hafa ákveðið að byggt verði upp í sem næst upprunalegri mynd og munu beita skipulagsvaldi, ef með þarf, til að fylgja þeirri stefnu eftir. Rannsókn á stórbrunanum stendur yfir og er íkveikja nú ekki útilokuð frekar en aðrar orsakir.

Í morgun tóku borgaryfirvöld af skarið og stöðvuðu niðurrif á rústunum við lækjargötu. Boðað var til fundar í Ráðhúsinu með skipulagsyfirvöldum í borginni og borgarverkfræðingi, borgarminjaverði, Þjóðminjasafni og húsfriðunarnefnd. Samband var haft við eigendur húsa og lóða á reitnum ásamt VÍS sem tryggði eignirnar. Sú stefna var mörkuð - og það skýr - að byggja þarna upp á reitnum í sem næst upprunalegri mynd, þrátt fyrir að gildandi skipulag geri í raun ráð fyrir að hægt sé að byggja töluvert hærri hús á reitnum. Skipulagsvaldið er borgarinnar, sagði aðstoðarmaður borgarstjóra, eftir fundinn. En stefnt er að verndun götumyndarinnar.

Samkævmt upplýsingum frá VÍS er verið að meta tjónið en ljóst að það er uppá fleiri hundruð milljónir króna. Eins og fram kom í gær er rannsókn lögreglu á vettvangi lokið en sjónir manna í dag beinast ekki jafn ákveðið og áður að því að kviknað hafi í útfrá rafmagni í loftljósi söluturns. Ekkert er útilokað - ekki einu sinni íkveikja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×