Innlent

Samfylkingin upp á landsvísu en niður í Suðvesturkjördæmi

MYND/GVA

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn bæta við sig fylgi á landsvísu í nýrri könnun Capasent Gallups en Vinstri grænum fatast flugið og Framsókn tapar fylgi. Samfylkingin tapar hins vegar verulegu fylgi í Suðvesturkjördæmi en Vinstri grænir koma í fyrsta skipti mönnum á þing í kjördæminu, samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Stöð 2.

Byrjum á könnun Stöðvar tvö þar sem umtalsverðar breytingar verða á fylgi flokkanna. Þar hrynur fylgi Samfylkingarinnar um 8,3 prósent og missir flokkurinn einn kjördæmakjörinn mann. Hins vegar fengju Vinstri grænir í fyrsta skipti kjörinn fulltrúa í kjördæminu og það tvo. Flokkurinn stekkur upp um 11,2 prósentustig.

Sjálfstæðisflokkurinn er mjög sterkur í Suðvesturkjördæmi og myndi bæta við sig einum manni og fá fimm kjörna á þing. Niðurstaðan er síðan alvarleg fyrir Framsókn, sem myndi missa sinn mann og þar með dytti Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra af þingi.

En þá að landskönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir RÚV og Morgunblaðið dagana 12. - 16. apríl, þegar landsfundir Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks stóðu yfir. Þar sækir Samfylkingin í sig veðrið og bætir við sig sex prósentustigum. Samfylkingin fengi 24,1 prósent ef kosið yrði nú og er orðin stærri en Vinstri grænir sem tapa sex prósentustigum frá síðustu könnun og mælast nú með 19,1 prósent. Samfylkingin fengi 17 þingmenn, tapaði þremur, en Vinstri grænir fengju 13 þingmenn, bættu við sig átta.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir töluvert við sig líka og er sem fyrr stærsti stjórnmálaflokkurinn með 40,8 prósent. Ef þetta gengi eftir myndu Sjálfstæðismenn bæta við sig sex þingmönnum. Framsókn dalar aftur á móti frá síðustu könnun og er nú með 7,9 prósent og fengi aðeins fimm þingmenn, missir sjö.

Þrátt fyrir þetta halda stjórnarflokkarnir meirihluta á Alþingi. Frjálslyndi flokkurinn mælist með 4,3 prósent og kæmi ekki manni á þing og aðrir flokkar mælast með enn minna fylgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×