Innlent

Loftræstikerfi sjúkrahúss lokað vegna sinubruna

Loka þurfti loftræstiskerfi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri vegna sinubruna í gærkvöld. Öll vakt slökkviliðsins var kölluð út til að slökkva eldinn og gekk það greiðlega.

Það var á tólfta tímanum í gærkvöld sem slökkviliðið á Akureyri var kallað út vegna sinubruna í Lækjargili, skammt sunnan Fjórðungssjúkrahússins. Strax var haft samband við sjúkrahúsið og loftræstikerfi spítalans lokað, enda stóð reykurinn í sunnanáttinni beint á spítalann. Vel tókst að ráða niðurlögum eldsins og þakkar slökkviliðið það skjótu viðbragði og fremur stilltu veðri.

Talið er mögulegt að um íkveikju hafi verið að ræða en áður hafa orðið stórir sinubrunar á þessu svæði vegna íkveikju sem þykir sérlega gálaust vegna nándarinnar við spítalann. Enginn slasaðist í brunanum í gærkvöld en slökkviliðsmenn á vettvangi sögðu að verr hefði getað farið. Að öðru leyti var fremur rólegt hjá slökkviliðum norðan heiða um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×