Innlent

Kristinnn í bílveltu á Steingrímsfjarðarheiði

MYND/GVA

Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður velti bíl sínum við Steingrímsfjarðarheiði í gærkvöld. Í samtali við fréttastofu sagðist Kristinn hafa verið á leið frá Ísafirði eftir kosningafund Frjálslynda flokksins í bænum þegar bíll hann rann út af í krapa og bleytu og valt

Kristinn komst að sjálfsdáðum út úr bílnum og segist hafa sloppið ómeiddur. Töluverður snjór hafi verið á heiðinni og að hafi orðið honum til happs að hann fór út af veginum þeim megin sem skaflarnir voru meiri.

Ökumaður sem kom aðvífandi hringdi á lögreglu sem kom og lét sækja bílinn og færði hann niður á Hólmavík. Kristinn fékk far þangað með björgunarsveitarmönnum að sunnan sem höfðu verið á fundi á Ísafirði. Hann hélt svo til Reykjavíkur með mönnunum.

Kristinn segir veginn um Steingrímsfjarðarheiði nokkuð góðan og að hann hafi verið á vel búnum bíl og þetta sé fyrsta óhappið sem hann lendi í þau 20 ár sem hann hafi ekið heiðina.

Kristinn segir að óhappið hafi engin áhrif á þátttöku hans í kosningabaráttu frjálslyndra fyrir þingkosningarnar en hann er í öðru sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi. Næstu skref séu að fá sér nýtt farartæki og halda ótrauður áfram.

Kristinn er annar þingmaður kjördæmisins sem veltir bíl sínum á stuttum tíma. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og sveitungi Kristins frá Bolungarvík, slapp ómeiddur þegar hann velti bíl sínum í Öxnadal á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×