Innlent

Nýjar reglur um takmarkanir á reykingum

Reykingabannið tekur gildi eftir rúmar sex vikur.
Reykingabannið tekur gildi eftir rúmar sex vikur. MYND/ Jón Mýrdal

Tóbaksreykingar um borð í skipum sem notuð eru í atvinnurekstri verða framvegis takmarkaðar samkvæmt nýrri reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum. Þá verður aðeins leyfilegt að reykja á útisvæðum við veitingastaði frá og með 1. júní næstkomandi. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðismálaráðherra, undirritaði reglugerðina í dag.

Samkvæmt reglugerðinni verður veitingastöðum leyfilegt að bjóða viðskiptavinum sínum upp á sérstakt yfirbyggt reyksvæði fyrir utan staðina sjálfa. Tryggja þarf þó að þar sé nægjanlegt loftstreymi og svæðið ekki lokað meira en að þremur fjórðu hlutum.

Þá verða reykingar um borð í fiskiskipum, kaupskipum og öðrum skipum sem notuð eru í atvinnurekstri verulega takmarkaðar. Aðeins verður leyfilegt að reykja á opnu þilfari og hvergi annars staðar nema með samþykki allra á vinnustaðnum.

Ráðherra undirritaði ennfremur reglugerð um smásölu á tóbaki en þar er meðal annars mælt nánar fyrir um heimildir til reksturs sérverslana með tóbak. Samkvæmt henni er tóbaksverslunum heimilt að hafa tóbak og tóbaksvörumerki sýnilegt viðskiptavinum inni í versluninni. Að utan má setja upp sérstaka merkingu með nafni verslunarinnar og undirtitlinum „sérverslun með tóbak." Nafn verslunarinnar má þó ekki fela í sér vörumerki tóbaks. Þá má tóbaksverslunin ekki vera hluti eða deild í annars konar verslun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×