Innlent

Beltin björguðu sjávarútvegsráðherra frá því að slasast

Einar K Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir ekki spurningu að notkun öryggisbelta komu í veg fyrir að hann stórslasaðist í bílveltu í Öxnadal í gærdag. Bílaleigubíll sem ráðherrann ók er gjörónýtur eftir slysið.

Einar K Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra var að aka Öxnadalinn á leið á pólitískan fund á Skagaströnd í gær, þegar hann lenti á hálku- og krapabletti á veginum. Einar segir að bíllinn hafi skransað til á veginum, farið útaf, oltið á toppinn og síðan á hliðina.

Einar var í öryggisbleti og segist alltaf keyra með beltið spennt. Hann segir ekki vafamál að það hafi bjargað honum a.m.k. frá því að slasast alvarlega.

Einar segir skipta miklu máli að hann hafi ekki verið á miklum hraða enda farinn að verða var við hálku. Hann segir að sér hafi brugðið við slysið. Hann hafi náð að koma sér úr flakinu hjálparlaust, en vegfarandi sem sá slysið hringdi í lögregluna og beið Einar í bíl hans þar til lögreglan kom.

Einar lét slysið þó ekki aftra sér frá því að fara á fundinn í Skagafirði, sem fjallaði um þjóðlendumál og fékk lögregluna til að aka sér á fundarstað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×