Innlent

Fimmtungur ríkisstarfsmanna ánægður með laun sín

MYND/Pjetur

Einungis fimmtungur ríkisstarfsmanna er ánægður með laun sín en átta af hverjum tíu eru hins vegar ánæðgir í starfi. Þetta leiðir ný könnun á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna í ljós.

Könnunin er samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands og ParX viðskiptaráðgjafar IBM og byggist á svörum tæplega 10 þúsund ríkisstarfsmanna hjá 144 stofnunum.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að mikið vinnuálag og streita virðist vera áberandi hjá ríkisstarfsmönnum og mælist það svipað og árið 1998 þegar sams konar könnun var gerð. Þá telja 17 prósent ríkisstarfsmanna sig hafa orðið einelti á núverandi vinnustað, þar af tíu prósent oftar en einu sinni.

Könnunin sýnir jafnframt að hlutfall kvenna í hópi stjórnenda hefur hækkað frá árinu 1998 þegar sams konar könnun var gerð og þá hefur ríkisstofunum fækkað úr 250 í 200 á tímabilinu.

Enn fremur eru nærri sex af hverjum tíu ríkisstarfsmönnum með háskólamenntun. Þá eru 44 prósent starfsmanna ánægð með stjórnun stofnunar sinnar en það er sama hlutfall og árið 1998.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×