Innlent

Höfðu afskipti af þúsundum ökumanna um páskana

MYND/Hilmar

Lögreglumenn höfðu afskipti af þúsundum ökumanna um páskana sem lið í stórauknu umferðareftirliti lögreglu á vegum landsins. Fram kemur í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóraembættinu að eftirlitið hafi verið aukið í samræmi við samning sem embættið gerði við Umferðarstofu fyrir hönd samgönguráðherra og er markmiðið að fækka verulega alvarlegum umferðarslysum.

Lögðu lögreglumenn áherslu á um helgina að taka á ölvunar- og fíkniefnaakstri, hraðakstri ásamt því að kanna ástand bifreiða. Bent er á í tilkynningunni að engin alvarleg umferðarslys hafi átt sér stað um páskahelgina og þakkar ríkislögreglustjóri lögreglumönnum vel unnin störf yfir hátíðarnar.

Þá bendir hann enn fremur á að áfram verði öflugt umferðareftirlit á næstu mánuðum enda meðal forgangsverkefna lögreglunnar að auka öryggi vegfarenda á vegum landsins. Eru ökumenn jafnframt hvattir til að sína tilhlýðilega ábyrgð í umferðinni og koma þannig í veg fyrir afskipti lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×