Innlent

Öruggasta heimili landsins opnað

Flestir sem slasast á Íslandi gera það innan fjögurra veggja heimilisins. Flest verða slysin inni í stofu og það eru stólarnir sem eru okkur skeinuhættastir. Öruggasta heimili landsins var opnað í Forvarnarhúsi Sjóvár í dag.

Samkvæmt síðustu ítarlegu rannsókn sem gerð hefur verið á slysum á heimilum eru þau ástæðan fyrir um fjörutíu prósent af öllum komum á slysadeild. Það eru einkum börn á aldrinum eins til fjögurra ára og fólk eldra en 65 ára sem slasast heima. Árið 2000 komu tæplega 12.500 manns á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi vegna slysa á heimilum.

Til að auðvelda fólki að koma í veg fyrir þessi slys hefur Sjóvá Forvarnarhús komið upp öruggasta heimili landsins í gamla Morgunblaðshúsinu í Kringlunni. Íbúðin er hönnuð í samvinnu við Ikea fyrir barnafjölskyldu og eldri borgara.

Þeir sem ekki komast til að skoða öruggasta heimili landsins geta farið inn á heimasíðu IKEA eða Forvarnarhússins og fundið út úr því hvernig hægt er að bæta öryggið heima fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×