Innlent

Fjórir þingmenn hugsanlega á leið út af þingi

Framsóknarflokkurinn nær ekki inn kjördæmakjörnum þingmanni í Reykjavík suður samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði á fylgi flokkanna fyrir RÚV og Morgunblaðið. Þá ná hvorki Frjálslyndir né Íslandshreyfingin inn manni.

Allir þessir flokkar mælast með um fjögurra prósenta fylgi og eru því nokkuð fjarri því að ná inn kjördæmakjörnum manni, en til þess þarf minnst átta til níu prósent atkvæða eftir atkvæðadreifingu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirburðastöðu í kjördæminu og bætir við sig þingmanni verði þetta úrslit kosninganna, er með fjóra nú en fengi fimm af níu kjördæmakjörnum þingmönnum.

Vinstri grænir eru næststærsti flokkur kjördæmisins með um 24 prósenta fylgi sem tryggir þeim örugga tvo kjördæmakjörna þingmenn og auka fylgi sitt frá síðustu kosningum um 15 prósent.

Samfylkingin fylgir fast á hæla þeirra með um 22 prósenta fylgi sem er töluvert minna en í síðustu kosningum og mundi flokkurinn missa einn kjördæmakjörinn þingmann. Ekki er hægt að reikna út útfrá þessum tölum hvaða framboð mundu hljóta tvö uppbótarþingsæti sem falla þessu kjördæmi í skaut, en þeim er úthlutað eftir fylgi flokka á landsvísu.

Samkvæmt þessu er Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og oddviti Framsóknar í kjördæminu á leið út af þingi sem og Sæunn Stefánsdóttir, ritari flokksins, sem er í öðru sæti. Þá eru Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Mörður Árnason sem sitja í þriðja og fjórða sæti Samfylkingarinnar sennilega á leið út af þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×