Innlent

Vinstri grænir vilja útrýma fátækt

Vinstri hreyfingin grænt framboð segir raunhæft að bæta kjör hinna verst settu og útrýma fátækt án þess að hækka skatta. Þeir hafa lagt fram tillögur sem kosta myndu ríkissjóð tólf milljarða króna.

Vinstri grænir opnuðu kosningaskrifstofu í dag í Kópavogi og efndu í leiðinni til fréttamannafundar undir yfirskriftinni : Bætum kjörin - burt með fátækt. Þar var lögð áhersla á að misrétti hafi aukist í íslensku samfélagi á undanförnum árum og lögð fram aðgerðaráætlun í mörgum liðum í þá veru að bæta hag hinna verst settu, svo sem að fella niður komugjöld á heilsugæslustöðvar, að öll börn og unglingar fái ókeypis tannvernd og almennar viðgerðir til tvítugs og aldraðir og öryrkjar fá slíkt sem hluta af heilbrigðisþjónustunni. Þá vilja Vinstri grænir samræma húsaleigu- og vaxtabætur undir skattkerfinu. Þá verði þröskuldum vegna búsetu rutt burt, til dæmis með því að tryggja landsbyggðinni gott aðgengi að almennri heilbrigðisþjónustu, nemendur geti stundað nám í heimahéraði til 18 ára aldurs. Einnig að grunnlífeyrir verði hækkaður og aldraðir hafi frítekjumark upp að 900 þúsund krónum á ári og engin börn á Íslandi búi við fátækt. Sem og að þjónusta við innflytjendur verði bætt verulega. Þetta er aðeins brot af því sem lagt er til, en fullyrt að hægt verði að ná þessum fram án skattahækkana. Ögmundur Jónasson leiðtogi flokksins í Suðvesturkjördæmi segir tekjuafgang af ríkissjóði sýna að nægt fé sé til. Hann segir þær hugmyndir sem kynntar voru í dag, kosta um 12 milljarða króna.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×