Innlent

Dorrit heppin að vera á lífi

Dorrit Mussayef, forsetafrú, var heppin að láta ekki lífið, þegar hún rakst nýlega harkalega á málmskilti í skíðabrekku í Aspen í Bandaríkjunum. Forsetafrúin brotnaði illa en er byrjuð í endurhæfingu og vonast læknar til þess að hún nái sér að fullu.

Á meðan forsetinn var á ferð um Bandaríkin var forsetafrúin á skíðum. Hún er mikil skíðakona og hefur margsinnis áður rennt sér niður brekkuna þar sem slysið varð. Þar var hins vegar búið að setja upp stórt málmskilti sem Dorrit vissi ekki af og keyrði hún á mikilli ferð á skiltið. Við það lærbrotnaði hún, handarbrotnaði og brákaðist á öxl.

Henni happs þá var hún með hjálm en án hans þá hefði hún líklega slasast mun verr. Sjúkraliðarnir sem fluttu hana úr brekkunni sögðu að það væri hjálminum að þakka að Dorrit er á lífi.

Endurhæfing Dorritar mun taka nokkra mánuði en hún æfir sig hvern dag og ætti að jafna sig að fullu að endurhæfingu lokinni. Hún vildi koma þakklæti til þjóðarinnar og allra sem hafa sýnt henni og forsetanum hlýhug.

Ólafur Ragnar Grímsson segir að fólk ætti að líta á slysið sem ábendingu um að nota hjálm þegar það er á skíðum. Sjálfur átti Ólafur í erfiðleikum með það í fyrstu að setja upp hjálm enda þótti honum það asnalegt svona eins og flestir aðrir Íslendingar en nú skíðar hann ekki öðruvísi og hefur ekki gert í mörg ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×