Innlent

Icelandair hyggst kæra ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

MYND/Anton

Icelandair hyggst kæra þá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því fyrr í dag, þar sem félagið var sektað um 190 milljónir króna fyrir samkeppnisbrot, til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Fram kemur í tilkynningu Icelandair vegna málsins að félagið telji sig hafa farið í einu og öllu eftir samkeppnislögum og ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá árinu 2003, sem staðfesti að Icelandair væri heimilt að kynna og selja Netsmelli með þeim hætti sem gert var. Þar hafi Icelandair fengið leiðbeinandi úrskurð sem félagið fylgdi.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nú þremur árum síðar í gagnstæða átt veki spurningar um verklag samkeppnisyfirvalda, en félagið er sektað vegna þess sem kallað er skaðleg undirverðlagning með Netsmellum um svipað leyti og Iceland Express kom inn á markaðinn.

Icelandair bendir enn fremur á að flugmarkaðurinn hafi verið undir smásjá samkeppnisyfirvalda um árabil og Icelandair hafi ávallt farið að öllum úrskurðum frá yfirvöldum og muni gera áfram. Við blasi að samkeppni í áætlunarflugi til og frá landinu sé hörð og Icelandair áskilji sér fullan rétt til þess að taka af krafti þátt í þeirri samkeppni neytendum til hagsbóta.

„Rétt er að vekja athygli á því að Icelandair er eini íslenski flugrekandinn sem stundar áætlunarflug milli Íslands og annarra landa. Auk Icelandair eru nú á þessum markaði svissneska flugfélagið Hello, breska flugfélagið Astreus og danska flugfélagið Sterling, sem fljúga undir merkjum Iceland Express, skandinavíska flugfélagið SAS og breska flugfélagið British Airways. Auk þess fljúga fjölmörg erlend flugfélög leiguflug frá Íslandi fyrir innlendar ferðaskrifstofur. Markaðshlutdeild Icelandair á flugmarkaðinum frá Íslandi er um 50%," segir að endingu í tilkynningu Icelandair.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×