Innlent

Fjögurra ára fangelsi fyrir fjölda líkamsárása

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í dag 25 ára karlmann, Steindór Hrein Veigarsson, í fjögurra ára fangelsi fyrir fimm líkamsárásir og húsbrot. Þá var félagi mannsins, Kristján Halldór Jensson, dæmdur í tveggja ára fangelsi einnig fyrir líkamsárásir. Tveir aðrir menn voru ákærðir í sama máli og var öðrum þeirra ekki gerð refsing en hinn sýknaður.

Ákæran í málinu er umfangsmikil og skipt niður í fjóra ákæruliði. Í þeim fyrsta var Steindóri Hreini gefið að sök að hafa ráðist á konu sem var leigubílstjóri og tekið hana hálstaki og kýlt hana ítrekað í andlitiið. Atvikið átti sér stað í mars í fyrra og sagðist Steindór ekki muna eftir því. Hann var hins vegar sakfelldur út frá framburði konunnar.

Í öðrum ákærulið var Steindóri Hreini og öðrum manni gefið sök líkamsárás með því að ráðast á mann fyrir utan Nætursöluna á Akureyri í febrúar í fyrra en félagi Steindórs var jafnframt ákærður fyrir að eyðileggja gleraugu fórnarlambsins. Voru þeir sakfelldir fyrir líkamsárás en maðurinn sýknaður af ákæru um að hafa eyðilagt gleraugun.

Í þriðja ákærulið var Steindóri Hreini, Kristjáni Halldóri og þriðja manni gefið að sök meðal annars húsbrot og Steindóri Hreiðari og Kristjáni líkamsárásir í heimahúsi á Akureyri í maí í fyrra, þar á meðal árás þar sem notuð var hafnaboltakylfa og þar sem klippt var framan af fingri eins fórnarlambanna með greinaklippu. Steindór játaði á sig brotin í þessum ákærulið en Kristján ekki en dómnum þótti sannað að hann hefði komið að þeim.

Í fjórða ákæruliðnum var Steindór Hreinn ákærður fyrir líkamsárás í ágúst síðastliðnum í tengslum við hópslagsmál á Akureyri. Sagði Steíndór að hann hefði óvart kýlt manninn í slagsmálunum og að hann hefði greitt honum skaðabætur og var hann því sýknaður af þessum ákærulið.

Steindór á að baki langan sakaferil og í ljósi þess að um ítrekunarbrot var að ræða og að eitt brotanna var hrottafengið var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Kristján Halldór á líka að baki langan sakaferil og meðal annars í ljósi alvarleika eins brotanna var hann dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar.

Steindór og Kristján voru ásamt þriðja manni, sem sakfelldur var en ekki gerð sérstök refsing, dæmdir til að greiða fórnarlömbum sínum á fjórðu milljón króna í skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×