Innlent

Sundabrautaráhugi er gömul samþykkt

Samþykkt stjórnar Faxaflóahafna á miðvikudag, um aðkomu að Sundabrautinni, er endurtekning á samþykkt sem gerð var undir lok ársins 2005 í tíð Reykjavíkurlistans. Núverandi minnihluti segir sorglegt, fyrir hagsmuni borgarbúa, að það skipti máli, í samskiptum ríkis og borgar, hvaða litur sé á valdhöfum í borginni.

Á miðvikudag samþykkti stjórn Faxaflóahafna að bjóðast til að standa að þessari stórframkvæmd sem Sundabrautin er. Daginn eftir fögnuðu bæði forsætis- og samgönguráðherra þessu stórhuga frumkvæði og boðað var til fundar daginn eftir í Stjórnarráðinu með forsætisráðherra, samgönguráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra auk fulltrúum frá Faxaflóahöfnum. Málið var drifið áfram. En þeir sem misstu meirihluta sinn í borginni síðasta vor lýsa þessu sem leikriti. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í borginni og fyrrverandi borgarstjóri segir að þessi vilji borgaryfirvalda sé ekki nýtilkomin. Sjálf hafi hún átt fund með samgönguráðherra um málið í sinni borgarstjóratíð en viðbragðið þá hafi ekki einkennst af sömu stemmingu og vilja og nú. Hún segir að það sé skítt fyrir hagsmuni borgarbúa að það skuli skipta máli í samskiptum við ríkisvaldið hver haldi um stjórnartaumana í borginni - hvaða litur sé á valdhöfunum. Það sé sorglegt að góðar hugmyndir séu ekki teknar gildar nema þær komi frá þóknanlegum yfirvöldum. Árni Þór Sigurðsson, fyrrverandi formaður stjórnar Faxaflóahafna segir að þessi vilji hafi verið samþykktur fyrst í stjórn undir lok árs 2005. Það sé því ekkert nýtt í málinu. Þetta sé endurtekið efni. Augljóslega sé verið að nota málið til þess að vekja á sér athygli í aðdraganda kosninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×