Innlent

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks styður ekki aðferð borgarstjóra

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er andvígur þeirri aðferð borgarstjóra að nota tugi ef ekki hundruð milljóna króna af skattfé almennings til að kaupa út spilasali úr íbúðahverfum borgarinnar. Kjartan telur skynsamlegra að vinna gegn slíkri starfsemi með því að setja inn ákvæði í lögreglusamþykkt eða deiliskipulag.

Áform einkahlutafélagsins Háspennu um að reka spilasali í verslanamiðstöðinni Mjódd í umboði Háskóla Íslands mættu harðri andspyrnu íbúasamtaka Breiðholts. Þau söfnuðu á þriðja þúsund undirskriftum gegn spilakössunum og afhentu borgarstjóra í byrjun árs. Borgarstjóri brást við með því að gagnrýna Háskólann harðlega en gekk síðan til samninga við fyrirtækið Háspennu. Borgarráð samþykkti samninginn fyrir helgi en athygli vakti að Sjálfstæðismaðurinn Kjartan Magnússon sat hjá.

Borgarstjóri hefur sagt samninginn kosta borgina 25 til 30 milljónir króna. Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar hefur hins vegar áætlað að samningurinn kosti borgina minnst 120 milljónir króna. Borgin kaupi húsnæðið í Mjódd fyrir 92 milljónir og leggi síðan Háspennu til lóð undir íbúðarhús við Starhaga sem meta megi á minnst 30 millljónir króna.

Borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna fagna því að tekist hafi að semja við Háspennu en átelja hins vegar þann hluta samningsins sem lýtur að lóðinni. Sú niðurstaða hafi yfir sér yfirbragð geðþóttaákvarðana. Kjartan hefur einnig efasemdir um þann þátt málsins og telur að eðlilegra hefði verið að selja lóðina hæstbjóðanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×