Innlent

Samráð um 28 milljóna króna hámark í auglýsingar

Stjórnmálaflokkarnir hyggjast síðar í dag kynna samkomulag um að takmarka auglýsingakostnað flokkanna fyrir þingkosningarnar eftir sjö vikur.

Samkomulag liggur fyrir í öllum megindráttum. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 verður sett hámark á birtingarkostnað auglýsinga og miðað við 28 milljónir króna á hvern flokk samtals í fjölmiðlum á landsvísu. Jafnframt er gert ráð fyrir að eftirlitsaðili fylgist með því að samkomulagið sé ekki brotið og birti reglulega tölur fram að kosningum um birtingarkostnað hvers flokks. Samkomulagið þýðir að auglýsingakostnaður flokka getur orðið nokkru hærri en 28 milljónir því hvorki kostnaður við gerð auglýsinga né birtingu þeirra í svæðisbundnum fjölmiðlum er innifalinn í samkomulaginu.

Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 var talsverður munur á hugmyndum flokkanna um hvaða hámark ætti að setja. Þannig vildu sjálfstæðismenn, vinstri grænir og frjálslyndir miða við tölum í kringum 20 milljónir króna en Samfylkingin og Framsóknarflokkur voru með hugmyndir um hámark á bilinu 30 til 35 milljónir króna. Niðurstaða um 28 milljóna króna hámark þýðir að verulega mun draga úr auglýsingakostnaði miðað við síðustu þingkosningar en þá er talið að einstaka flokkar hafi varið allt að 80 milljónum króna í auglýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×