Innlent

Vill vinnuverndarráð í stað stjórnar Vinnueftirlitsins

MYND/Valgarður

Ríkisendurskoðun vill að stjórn Vinnueftirlits ríkisins verði lögð niður og í stað hennar komi sérstakt vinnuverndarráð sem skipað verði fulltrúum aðila vinnumarkaðarins. Í úttekt Ríkisendurskoðunar á Vinnueftirlitinu segir að stjórn Vinnueftirlitsins hafi ekki náð að laga sig að breyttu hlutverki sínu sem ráðgefandi stjórn og hafi það torveldað samskipti stofnunar og félagsmálaráðuneytis. Gert er ráð fyrir að vinnuverndarráðið verði ráðherra til ráðgjafar en hafi engin bein tengsl við stofnunina.

Þá leggur Ríkisendurskoðun til að kannað verið hvort flytja megi hluta vinnuvélaeftirlits á vegum Vinnueftirlits ríksins til faggiltra skoðunarstofa og stjórnsýslu þess til Umferðarstofu. Þá segir enn fremur í úttektinni að Vinnueftirlitið sinni mjög víðtæku eftirliti með fyrirtækjum, vinnuvélum og markaði auk þess að sinna fræðslu, ráðgjöf og rannsóknum. Þess vegna dreifist kraftar stofnunarinnar mikið auk þess sem óæskilegt sé að sami aðili hafi með höndum eftirlit, ráðgjöf og rannsóknir á sama sviði. Því telur Ríkisendurskoðun að Vinnueftirlitið ætti að einbeita sér að tilteknum kjarnaþáttum, það er stjórnsýslu og leiðandi verkefnum á sviði vinnuverndar en láta öðrum sem mest eftir sérhæfða þjónustu og ráðgjöf um vinnuvernd.

Þá vill Ríkisendurskoðun að markaðseftirlit með ýmiss konar vélum, tækjum og búnaði heyri frekar undir Neytendastofu en Vinnueftirlitið. Neytendastofa semji þá við faggiltar skoðunarstofur um eftirlitið og tryggi samræmi í því en Vinnueftirlitið rýni þau gögn sem skoðanir leiða í ljós og gegni áfram hlutverki eftirlitsstjórnvalds.

Í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun segir að hún telji mikilvægt að efla gagnasöfnun og rannsóknir á áhrifum vinnuverndarstarfs til þess að auðveldara sé að meta þróun þessara mála hér á landi, bæði með hliðsjón af öðrum löndum og þeim markmiðum sem sett hafa verið. Þátttaka Vinnueftirlitsins í stofnun Rannsóknarstofu í vinnuvernd hafi verið jákvætt skref í þessa átt og að kanna beri hvort hún geti leyst Vinnueftirlitið af hólmi við slíkar rannsóknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×