Innlent

Þjóðminjasafnið safnar upplýsingum um skipasmíðar

Skipasmíðastöð Njarðvíkur 1950-1955.
Skipasmíðastöð Njarðvíkur 1950-1955. MYND/Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafn Íslands hyggst á næstunni safna upplýsingum um skipasmíðar vegna þess að greinin á nú mjög undir högg að sækja hér á landi. Eftir því sem segir í tilkynningu frá safninu hefur það sent út spurningaskrá um skipasmíðar til tréskipasmiða og járnskipasmiða um allt land.

Bent er á að tréskipasmíði hafi nánast lagst alveg niður, að frátalinni dálítilli smábátasmíði, og þá hafi smíði stálskipa nánast öll flust úr landi. Því sé ekki seinna vænna að hefja söfnun upplýsinga um þessa starfsgrein.

Í spurningaskrá Þjóðminjasafnsins er fólk beðið um að segja frá sinni eigin reynslu á þessum vettvangi. Jafnframt er stefnt að því að taka viðtöl við tiltekinn fjölda skipasmiða til varðveislu í bestu hljómgæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×