Innlent

Borgin vill reka tilraunaframhaldsskóla

Menntaráð Reykjavíkur vill að þegar verði teknar upp viðræður við menntamálaráðuneytið um að borgin taki að sér að reka einn af framhaldsskólum borgarinnar í tilraunaskyni. Formaður menntaráðs segir að í slíkum skóla ætti að bjóða upp á einstaklingsmiðað og sveigjanlegt nám.

Á fundi menntaráðs í dag var lagt til að borgarráð tæki þegar upp viðræður um þetta við menntamálaráðuneytið. En þetta mál hefur einnig verið ril umræðu innan Sambands íslenskra sveitarfélaga og ljóst að nokkur áhugi er innan sveitarfélaganna að taka þennan málaflokk alfarið yfir frá ríkinu.

"Það er hins vegar jafnframt eðlilegt að Reykjavíkurborg sem er stærsti rekstraraðili grunnskóla landsins hafi forgöngu um þetta og forystu," segir Júlíus Vífill Ingvarsson formaður menntaráðs.´

Menntaráð sjái fjölmörg tækifæri þróunar í framhaldsskólunum í Reykjavík. Í þessu sambandi sé enginn einn skóli nefndur en mörg spennandi tækifæri séu í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti.

Það er álit menntaráðs að grunnskólanum hafi vegnað vel eftir að sveitarfélögin tóku hann yfir frá ríkinu. Júlíus Vífill segir mörg tækifæri felast í því að taka yfir framhaldsskólana. Eitt af því sem horft er til er að þjóna nemendum sem hafa viljað hefja framhaldskólanám áður en grunnskólanámi lýkur, og þannig stytt leið sína í gegnum framhaldsskólann.

Tilraunaskóli sem þessi að hálfu Reykjavíkurborgar myndi bjóða upp á einstaklingsmiðað og sveigjanlegt nám. Þetta hefur ekki verið rætt við menntamálaráðherra.

"Nei og það er rétt að taka fram að það hefur heldur ekki verið rætt við skólastjórnendur í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti," segir Júlíus Vífill. Hann sé heldur ekki eini skólinn sem komi til greina. Það liggi heldur ekki fyrir hver afstaða menntamálaráðherra verði í málinu, en vonandi verði hún góð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×