Innlent

Samtök fyrir fólk af opinberum barnaheimilum

Á fjórða tug manna var á fundi í Laugarneskirkju í gær þar sem ákveðið var að stofna formlega samtök fólks sem var á opinberum barnaheimilum í æsku, Breiðavík og öðrum stöðum. Aðstandendur verða einnig í þessum samtökum.

Stefnt er að því að stofna þessi samtök formlega á skírdag en um 35 manns voru á fundi í Laugarneskirkju í gær og lagði gunn að stofnun þessa félags. Pétur Pétursson, prófessor í guðfræðideild hefur verið talsmaður þessa undirbúningshóps og segir hann að áður en samtökin verða stofnuð muni verða safnað saman upplýsingum um sambærileg samtök hjá grannþjóðunum.

Stefnt sé að því að hafa samtökin einnig opin fyrir aðstandendur þeirra sem voru vistaðir á barna- og unglingaheimilum hins opinbera. Viðmiðunarárin sem samtökin vísa til eru 1950 til 1980. Pétur segir að samtökin hafi það að markmiði að gæta að réttarstöðu þeirra sem voru í slíkri vistun en einnig sé vilji til að halda áfram því sálgæsluverkefni sem verið hefur í Laugarneskirkju.

Á fundinum í gær kom það einnig fram að hópurinn vill stuðla að því að hugað sé að velferð þeirra barna sem séu enn vistuð á barna- og unglingaheimilisins á vegum hins opinbera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×