Innlent

Fjárhagslegur ávinningur brostinn

Samtökin Sól í Straumi, sem eru andvíg stækkun álversins í Straumsvík, segja í yfirlýsingu að fjárhagslegur ávinningur bæjarins af stækkun álversins sé brostinn.

Nú liggi fyrir að lagafrumvarp um breytingu á skattaumhverfi Alcan var ekki afgreitt á Alþingi , sem leiði af sér að fyrirheit Alcan um fjárhagslegan ávinning Hafnarfjarðarbæjar um allt að átta hundruð milljónir króna á ári af stækkuðu álveri, séu brostin. Sól í Straumi harmar jafnframt að beinar tekjur Hafnarfjarðarbæjar af núverandi starfssemi Alcan, skuli ekki aukast, en gert var ráð fyrir því í furmvarpinu, sem ekki fór í gegn.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að Alcan færu að greiða fasteignagjöld til Hafnarfjarðar, en hættu á móti að greiða framleiðslugjald til ríkisins. Nú er aðeins hálfur mánuður þartil hafnfirðingar ganga til kosninga um breytingu á aðalskipulagi, þar sem úr því verður skorið hvort meirihluti bæjarbúa er fylgjandi stækkun eða ekki.

Óljóst er hvort þetta kann að hafa áhrif á niðurstöðuna, en Lúðvík Geirsson bæjarstjóri segir að þessi breyting verði sótt til ríkisins og allar greiðslur samkvæmt henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×