Innlent

Yfirheyrslur hafnar yfir meintum nauðgara

Yfirheyrslur eru hafnar yfir ungum útlendingi, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi, grunuðum um að hafa nauðgað ungri konu á kvennasalerni á Hótel Sögu aðfaranótt laugardags.

Myndskeið úr eftirlitsmyndavélum á hótelinu, vitnisburður starfsfólks í gestamóttöku og konu, sem mætti fórarlambinu skömmu áður en ódæðið var framið, leiddu meðal annars til þess að athygli lögreglu beindist mjög að þessum tiltekna manni, sem er fæddur í Austur Evrópu árið 1988.

Hann býr í Hafnarfirði og hafði lögregla nokkurn viðbúnað við handtöku hans, enda maðurinn grunaður um gróft ofbeldi. Hann veitti hinsvegar ekki mótspyrnu og var vistaður í fangageymslum í nótt.

Lögregla vill ekki tjá sig um hvort grunur leiki á að hann hafi átt sér vitorðsmann-eða menn, en skýrslur verða teknar af öllum, sem hugsanlega tengjast málinu. Þá býst lögreglan við að krafist verði gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir honum í dag, annaðhvort á grundvelli rannsóknarhagsmuna, eða almannahagsmuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×