Innlent

Óvenju mikil endurnýjun framundan á Alþingi

Óvenju mikil endurnýjun verður á Alþingi Íslendinga í kosningum eftir átta vikur og má ætla að um helmingur þeirra þingmanna, sem kosnir voru fyrir fjórum árum, setjist ekki á þing á ný. Í hópi þeirra sem yfirgáfu þennan starfsvettvang í síðasta sinn í nótt voru nokkrir með um og yfir tuttugu ára þingreynslu.

Sólveig Pétursdóttir þingforseti er meðal þeirra sem hætta en það kom í hlut Össurar Skarphéðinssonar að færa henni kveðjur þingheims. Jafnframt færði hann henni blómvönd að gjöf. Forsætisráðherra las síðan upp forsetabréf um frestun á fundum Alþingis.

Nú tók við hjartnæm kveðjustund en óvenju margir þingmenn, sem kjörnir voru fyrir fjórum árum, sækjast ekki eftir endurkjöri. Þá benda kannanir til að talsverður fjöldi þingmanna nái ekki endurkjöri. Einn starfandi alþingismaður lést á kjörtímabilinu, Árni Ragnar Árnason, og sjö hafa sagt af sér þingmennsku, þeirra á meðal tveir forsætisráðherrar, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Einnig hættu Tómas Ingi Olrich, Guðmundur Árni Stefánsson, Gunnar Birgisson, Bryndís Hlöðversdóttir og Árni Magnússon. Meðal þeirra sem yfirgáfu Alþingi í síðasta sinn í nótt voru Margrét Frímannsdóttir, og Jón Kristjánsson, bæði með yfir 20 ára þingreynslu, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Sigríður Anna Þórðardóttir, Hjálmar Árnason, Jóhann Ársælsson, Guðrún Ögmundsdóttir, og loks Halldór Blöndal, eftir 28 ára þingsetu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×