Innlent

Tafir á umferð á Hellisheiði vegna umferðarslyss

MYND/Stöð 2

Umferðarslys varð á Hellisheiði nú á fjórða tímanum þar sem jeppi og fólksbíll rákust saman. Um aftanákeyrslu var að ræða en ekki er vitað hvor ók aftan á hvorn. Tveir eða þrír munu hafa verið fluttir á sjúkrahús vegna slyssins en meiðsli þeirra eru ekki sögð alvarleg.

Tafir eru á Hellisheiði vegna slyssins og er fólk beðið að fara Þrengslin. Lögregla á Selfossi segir mikinn skafrenning á Hellisheiði og lítið skyggni og líklega megi rekja aftanákeyrsluna til þess.

Enn er ófært yfir Holtavörðuheiði en þar hafa björgunarsveitir aðstoðað vegfarendur sem lent hafa í vandræðum í dag. Þá er Brattabrekka einnig ófær en fólki er bent á að fara Laxárdalsheiði og Heydal.

Enn fremur er Víkurskarð ófært og beðið er átekta með mokstur. Á Vestfjörðum lokar snjóflóð sem féll í dag Súðavíkurhlíð og slæmt veður er á Norðurlandi, Norðausturlandi og Austurlandi, víðast hvar hálka, hálkublettir, éljagangur og skafrenningur og ótryggt veðurútlit fram undan. Öxi er ófær og þæfingsfærð er á Breiðdalsheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×