Erlent

Stjórnarandstæðingum meina að yfirgefa Simbabve

Robert Mugabe, forseti Simbabves.
Robert Mugabe, forseti Simbabves. MYND/AP

Yfirvöld í Simbabve hafa meinað fjórum félögum í stjórnarandstöðunni að fara úr landi og börðu einn þeirra þegar hann hugðist fljúga til Evrópu á fund.

Nelson Chamisa, talsmaður stjórnarandstöðuflokksins MDC, var á leið til Brussel og segir hóp manna hafa ráðist á sig fyrir utan flugvöllinn í Harare, höfuborg Simbabve, og barið sig. Hann var fluttur á sjúkrahús í borginni þar sem í ljós kom að hann var höfuðkúpubrotinn.

Þá voru tvær konur úr stjórnarandstöðunni stöðvaðar á flugvellinum þegar þær hugðust fljúga til Suður-Afríku til að leita sérfræðings vegna meiðsla sem þær hlutu í haldi lögreglunnar. Enn fremur var fjórði maðurinn handtekinn á leið úr landi.

Stjórn Roberts Mugabes, forseta Simbabve, hefur sætt harðri gagnrýni á alþjóðavettvangi eftir að í ljós kom að lögregla hefði barið leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Morgan Tsvangirai, hrottalega eftir að hann var handtekinn í mótmælum í Harare fyrir viku. Mugabe hefur hins vegar vísað gagnrýninni á bug og sagt stjórnarandstöðuna stuðla að ofbeldinu.

Tsvangirai sagði í samtali við BBC í dag að teldi að valdataflið í landinu myndi brátt snúast og að 27 ára einræði Mugabes í Simbabve yrði brátt á enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×