Innlent

Framtíðarlandið býður þjóð og ráðamönnum sáttmála

María Ellingsen leikkona kynnir sáttmálann í Þjóðmenningarhúsinu í dag.
María Ellingsen leikkona kynnir sáttmálann í Þjóðmenningarhúsinu í dag. MYND/Stöð 2

Framtíðarlandið kynnti í dag sáttmála um framtíð Íslands sem samtökin bjóða þjóðinni og ráðamönnum að undirrita. Sáttmálinn kveður á um að þjóðin hafi kjark til að byggja upp fjölbreytt og lifandi samfélag þar sem hugvit og sköpunargleði fær að njóta sín ásamt því að áætlanir um náttúruvernd verði lögfestar áður en nokkuð frekar verður aðhafst í orkuvinnslu og stóriðju.

Þá kveður sáttmálinn á um að Íslendingar axli ábyrgð sína á tímum loftlagsbreytinga með því að fylgja alþjóðlegum skuldbindinugum um losun gróðurhúsalofttegunda.

Fram kom á blaðamannafundi Framtíðarlandsins í dag þar sem sáttmálinn var kynntur að deilur í vikjana- og stóriðjumálum hefðu klofið þjóðina og myndu aðeins magnast. Því væri sáttmálinn lagður fram. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi Forseti Íslands er verndari sáttmálans.

Í tilkynningu Framtíðarlandsins vegna sáttmálans segir að fyrir stjórnmálamenn þýði þetta að áður en ráðist verði í nokkrar frekari virkjunar- eða stóriðjuframkvæmdir verði búið að afgreiða og samþykkja fyrsta og annan áfanga Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og að Rammaáætluninni í heild verði gefið lögformlegt vægi.

Fjölmargir hafa þegar stutt sáttmálann, þar á meðal Sigurbjörn Einarsson biskup, Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og aðstoðarforstjóri Time Warner, Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, Guðný Halldórsdóttir Laxness kvikmyndaleikstjóri og Guðrún Agnarsdóttir, læknir og forstjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Hægt er að skoða sáttmálann og skrifa undir hann á heimasíðu Framtíðarlandsins, www.framtidarlandid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×