Innlent

Alþingismenn farnir heim

Störfum Alþingis á kjörtímabilinu er lokið. Geir H. Haarde forsætisráðherra las upp forsetabréf um þingfrestun og sleit síðasta þingfundi klukkan hálfeitt í nótt.

Vonir manna í gær um að unnt yrði að ljúka þingstörfum í björtu brugðust. Fundur drógst fram á nótt. Það var rétt eins og þingmenn gætu ekki hætt að tala, þeir virtust stöðugt finna sér ný tilefni til að tjá sig. Eftir að hafa samþykkt 114 lagafrumvörp og 29 þingsályktanir frá því í haust var komið að kveðjuræðunum. Sólveig Pétursdóttir þingforseti taldi brýnt að Alþingi treysti bönd sín við Þingvelli. Össur Skarphéðinsson færði forseta kveðju fyrir hönd þingheims og kvaddi síðan Sólveigu sérstaklega með blómvendi. Þá var komið að því að forsætisráðherra læsi upp forsetabréf um frestun þingfunda. Nú tók við hjartnæm kveðjustund en óvenju margir þingmenn, sem kjörnir voru fyrir fjórum árum, sækjast ekki eftir endurkjöri. Einn hefur látist, Árni Ragnar Árnason, og sjö hafa sagt af sér þingmennsku á kjörtímabilinu, þeirra á meðal tveir forsætisráðherrar, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Einnig hættu Tómas Ingi Olrich, Guðmundur Árni Stefánsson, Gunnar Birgisson, Bryndís Hlöðversdóttir og Árni Magnússon. Meðal þeirra sem yfirgáfu Alþingi í síðasta sinn í nótt voru, Margrét Frímannsdóttir, Jón Kristjánsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Hjálmar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Jóhann Ársælsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, og Halldór Blöndal, eftir 28 ára þingsetu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×