Innlent

Búið að opna Hellisheiðina en ekkert ferðaveður

Hellisheiðinni var lokað í morgun vegna blindhríðar og var lögregla og hjálparsveit kölluð út til að aðstoða ökumenn. Á Vestfjörðum og Norðurlandi er hins vegar víða búið að opna vegi eftir snjóflóð eða snjóflóðahættu.

Slæmt veður hefur verið víða á vesturhluta landsins frá því um miðjan dag í gær og í morgun var gripið til þess ráðs að loka Hellisheiðinni eftir að blindbylur skalla á í Kömbunum og fólk lenti í vandræðum þar. Fór lögreglan á Selfossi til aðstoðar ökumönnum og þá var Hjálparsveit skáta í Hveragerði einnig kölluð út vegna illvirðisins.

Ekki liggur fyrir hversu margir þurftu á aðstoð að halda en nú laust fyrir fréttir var vegurinn opnaður aftur. Lögregla segir þó lítið ferðaveður á heiðinni og biður vegfarendur að fylgjast með fréttum af færð.

Þá féllu snjóflóð bæði á Vestfjörðum og Norðurlandi í gær og höfðu áhrif á umferð. Um kvöldmatarleytið í gær féll snjóflóð á veginn milli Súðavíkur og Ísafjarðar og þegar snjóruðningstæki kom á vettvang til að moka snjónum burt féll annað flóð og hafnaði á tækinu. Ökumanninn sakaði ekki en vegurinn var ekki mokaður fyrr en í morgun.

Þá var vegunum um Ísafjarðardjúp og Óshlíð lokað í gær vegna snjóflóðahættu og þá lokaðist Hnífsdalsvegur eftir að um 70 metra breitt snjóflóð féll á hann í nótt. Allir þessir vegir hafa verið opnaðir í morgun. Hins vegar er enn hættuástand í hesthúsahverfinu í Hnífsdal vegna snjóflóðahættu.

Þá er búið að opna Siglufjarðarveg en hann lokaðist í gær eftir að snjóflóð féll í Mánárskriðum. Víða er þó skafrenningur eða él á Norðulandi. Þá er verið að moka Bröttubrekku en slæmt ferðaveður er á Holtavörðuheiði.

Enn fremur er mjög hvasst og hált á Kjalarnesi en blindhríð sem þar var í morgun er gengin yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×