Innlent

Íslendingar héldu sínum hlut í fiskveiðum við Evrópusambandsaðild

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að þótt fullveldisáhrif yfir fiskimiðunum færðust yfir til Evrópusambandsins við aðild, myndu Íslendingar halda sínum hlut í fiskveiðum.

Yfirlýsingar Þorsteins Pálssonar á Iðnþingi í gær um Evrópusambandsaðild eru ekki síst áhugaverðar í ljósi þess að hann gegndi embættti sjávarútvegsráðherra um átta ára skeið en það eru einkum hagsmunir sjávarútvegs sem hafa verið helstu rökin gegn aðild Íslands.

"Fiskveiðiauðlindir Evrópusambandsins eru sameign aðildarríkjanna öndvert við aðrar náttúruauðlindir. Að formi til töpuðust fullveldisyfirráðin yfir þeim með aðild. En eftir reglunni um hlutfallslegan stöðugleika myndum við halda okkar hlut, að því er best verður séð, en á öðrum forsendum en áður. Rétt er að stíga slík skref af varkárni," sagði Þorsteinn í ræðu sinni.

Það hafi heldur ekki aukið áhuga á félagsskapnum að fiskveiðistjórnun innan Evrópusambandsins hafi einkennst meir af hrossakaupum en ábyrgð. "Í reynd er þó líklegast að okkar eigin mat yrði ráðandi í þessum efnum ef til þeirra kasta kemur".

Þorsteinn telur að helsta áhættan við aðild sé óttinn við að útlendingar kaupi upp veiðirétt til að þjóna hagsmunum fiskvinnslu á meginlandinu. "Sú mynd hefur hins vegar verið að breytast með öflugri íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sem sjálf hafa fjárfest bæði í veiðum og vinnslu innan bandalagsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×