Innlent

Mikill áhugi fyrir námskeiði um vatnsaflsvirkjanir

MYND/GVA

Á þriðja tug erlendra nemenda mun dvelja hér á landi næstu vikuna í tengslum við námskeið um vatnsaflsvirkjanir. Námskeiðið er haldið á vegum samtakanna BEST sem eru evrópsk samtök háskólanema í tæknigreinum.

Alls eru 70 evrópskir háskólar í 30 löndum aðilar að samtökunum, en íslenskt aðildarfélag var stofnað af nemendum Háskóla Íslands árið 2005. Námskeiðið sem haldið verður á Íslandi í næstu viku ber yfirskriftina "Drink Your Energy" en að því koma HÍ, Verkfræðingafélag Íslands, Landsvirkjun og Toyota.

Munu evrópsku nemendurnir hlýða á fyrirlestra hjá prófessorum við Háskóla Íslands og starfandi verkfræðingum, heimsækja íslensk fyrirtæki og fara í vettvangsverðir í Búrfellsvirkjun og Sultartangavirkjun.

Í tilkynningu frá BEST á Íslandi segir að gríðurlegur áhugi hafi verið fyrir námskeiðinu og sótti á þriðja hundrað nema frá 54 háskólum um að koma á það. Hins vegar var aðeins hægt að taka á móti einum tíunda af þeim en þeir koma frá 19 löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×