Innlent

Samþykkja að salta nokkur mikilvæg mál

Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefur fallist á að salta nokkur mikilvæg þingmál í von um að sátt takist um að ljúka þingstörfum í dag. Meðal þeirra eru langtímaáætlun í samgöngumálum, frumvarp iðnaðarráðherra um nýtingu auðlinda og frumvarp um sameiningu RARIK og Orkubús Vestfjarða og Landsvirkjunar. Vinstri grænir neita þó að gangast undir sátt fyrr en vegalög hafa einnig verið slegin af.

Stefnt er að því að þingstörfum ljúki síðdegis. Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, telur að það sé það langt gengið til samkomulagsáttar að þingi ætti að ljúka í björtu í dag. Fjölmargir þingmenn séu að hætta og menn vilji hætta í dagsljósi.

Vinstri - græn hóta málþófi og segjast tilbúin að mæta aftur eftir helgi. Þau vilja Vegalög út af borðinu. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, segir að í lögunum séu ákvæði sem ekki komi til greina af hálfu vinstri - grænna að afgreiða. Þau snúast um þær fyrirætlanir að leggja niður meira eða minna allar þjónustustöðvar Vegagerðarinnar á landsbyggðinni. Það væri algjörlega á skjön við það sem menn ræða núna, að landsbyggðin hafi eðlilega hlutdeild í opinberri þjónustu.

Stjórnarandstöðunni hefur þegar tekist að beygja stjórnarmeirihlutinn til að falla frá nokkrum málum. Össur bendir á samgönguáætlun í því sambandi sem hann segir hafa verið kosningatrix af hálfu meirihlutans. Sama gildi um frumvarp um rannsóknir og nýtingu auðlinda sem Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra kallað þjóðarsátt.

Steingrímur J. Sigfússon bendir auk þess á frumvarp um sameiningu Landsvirkjunar, Rarik og Orkubús Vestfjarða.

Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, bendir á að líklega sé þetta í eina skiptið sem stjórnarandstaða allra tíma hafi einhver völd og áhrif. Það sé einmitt á síðustu dögum þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×