Innlent

Rætt við Garðar Thór í Daily Telegraph

MYND/Ómar

Fjallað er um tenórsöngvarann Garðar Thór Cortes og rætt við hann í breska blaðinu Daily Telegraph í dag. Þar segir að á næstunni, nánar tiltekið 26. mars, verði plata hans, Cortes, gefin út í Bretlandi eftir mikla sigurgöngu á Íslandi. Fram kemur að fyrirtæki Einars Bárðarsonar, sem sagður er hinn íslenski Simon Cowell, gefi plötuna út.

„Þegar Einar ræddi fyrst við mig um að gefa út plötu á Íslandi sagði ég: „Ef þú heldur að einhver muni kaupa hana,"" segir Garðar Thór í samtali við Daily Telegraph. Þá segist hann ekki hafa átt von á því að platan myndi seljast jafnhratt og raunin varð. „Einar er mjög snjall og trúir 110 prósent á það sem hann ræðst í," segir Garðar Thór enn fremur.

Bent er á í greininni að Bretar hafi þegar kynnst Garðari Thór því hann hafi verið sérstakur gestur á tónleikferð Katherine Jenkins og fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína. Í samtali við Daily Telegraph segir hann enn fremur að hann vilji ekki fara of mikið út í popptónlistina því hann óttist að þá missi hann trúverðugleika í óperuheiminum, en Garðar hefur einnig getið sér gott orð þar. „Ef sala á plötunni gengur vel get ég vonandi nýtt mér það en ég er fyrst og fremst klassískur óperusöngvari," segir Garðar Thór.

Þá segir að fjölskylda hans tengist meira og minna öll tónlist því systkini hans syngi bæði, móðir hans sé konsertpíanisti og faðir hans, Garðar Cortes eldri, eigi að baki glæsilegan feril á alþjóðavettvangi sem tenór. Segir Garðar Thór að hann faðir hans veiti honum mikinn stuðning og vari hann við að erfitt sé að hasla sér völl í tónlistinn. „Þegar ég horfi til baka þá sé ég að hann hafði rétt fyrir sér, það var helvíti erfitt. Afsakið orðbragðið," segir Garðar Thór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×