Innlent

Allar tennur ónýtar í barni

Ný rannsókn sýnir að tannheilsu barna hefur hrakað á síðustu tíu árum og eru tannskemmdir nú tvöfalt fleiri í íslenskum börnum en sænskum. Börn lágtekjufólks eru með tvöfalt fleiri skemmdir en börn hátekjufólks. Tannlæknir þurfti í morgun að byrja á að draga allar átján tennurnar úr tæplega sex ára gömlu barni.

Tannheilsu íslenskra barna hefur hrakað á síðustu árum. Skemmdunum fjölgar og tannlæknar eru nú að sjá skelfileg dæmi - nú síðast í morgun. Þórður Birgisson, tannlæknir sagði frá því í fréttum Stöðvar 2 að hann hefði fengið tæplega sex ára gamla stúlku á stofuna í morgun með allar tennur ónýtar. Taldi hann í fyrstu að barnið hefði fæðst tannlaust svo brunnar voru tennurnar niður í rót. Hóf hann að fjarlægja leyfarnar og telur sýnt að allar barnatennurnar 18 muni hverfa.

Það liggur fyrir viðamikil könnun sem Lýðheilsustöð og Heilsugæslan hafa gert á tannheilsu barna sem staðreynir að tannheilsan versnar og er mun verri en í nágrannaríkjunum. Hólmfríður Guðmundsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Lýðheilsustöð segir að tíðni tannskemmda hjá 12 ára börnum sé tvöfallt hærri en hjá jafnöldrum þeirra í Svíþjóð. Tannskemmdir barna eru meiri hér en í öllum öðrum norrænum ríkjum. Hólmfríður segir að ástandið hafi versnað síðasta áratug.

Rannsóknin sýnir svo ekki verður um villst að börnin með mestu tannskemmdirnar eru frá tekjulágu fjölskyldunum. Stefán Hrafn Jónsson, sviðstjóri hjá Lýðheilsustofnun segir að tvöfallt meiri tannskemmdir eru hjá börnum sem tilheyra fjölskyldum þar sem heildartekjur eru undir 200 þúsund á mánuði en hjá fjölskyldum þar sem tekjurnar eru yfir 400 þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×