Innlent

Vildi ekki gefa upp hver ónefndur maður væri

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, neitaði fyrir rétti í dag að gefa upp hver ónefndur maður væri sem minnst var á í tölvupósti sem hann sendi Jónínu Benediktsdóttur. Leiddar hafa verið að því líkur að þar hafi verið átt við Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra. Kjartan Gunnarsson mætti ekki eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, spurði Styrmi út í tölvupóst sem hann sendi Jónínu Benediktsdóttur í júlí 2002 en hluti úr honum var birtur í Fréttablaðinu í 24. september 2005. Þar segir Styrmir Jón Steinar Gunnlaugsson, núverandi hæstaréttardómara, vera algjörlega pottþéttan mann og hvorki hún né Jón Gerald Sullenberger þurfi að hafa áhyggjur af honum. Tryggð hans við ónefndan mann sé innmúruð og ófrávíkjanleg. Styrmir neitaði því í dag að gefa upp hver þessi ónefndi maður væri en leiddar hafa verið að því líkur að þar hafi verið átt við Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra. Styrmir sagði samskipti í starfi sínu yfirleitt bundin trúnaði auk þess sem um gamansemi hafi verið að ræða í póstinum. Hann vildi ekki tjá sig nánar um málið þegar eftir því var leitað.

Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins mætti ekki til skýrslutöku í dag eins og gert hafði verið ráð fyrir. Tilraun var gerð til að boða Kjartan, en ekki náðist í hann. Kjartan verður nú boðaður í skýrslutöku á mánudaginn en þá er áætlað að skýrslutökunum ljúki. Málflutningur hefst viku síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×