Innlent

Milljarður aukalega til gatnaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu

Meirihluti samgöngunefndar Alþingis leggur til eins komma sex milljarða viðbótarframlög í samgönguáætlun á árunum 2008 til 2009. Mestu munar um einn milljarð sem fer í tvær stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.

Samgönguáætlun til ársins 2012 felur nú þegar í sér framkvæmdir við vegi, hafnir og flugmál upp á 318 milljarða króna. Meirihluti samgöngunefndar leggur til að framlögin verði aukin um 1,6 milljarða sem skiptast þannig. 600 milljónir fari í gerð mislægra gatnamóta við Kringlumýrarbraut og Miklabraut á árinu 2009, en R-listinn lagðist gegn þessum gatnamótum á sínum tíma en núverandi meirihluti vill byggja þau. Þá fara 400 milljónir til fjölgunar akbrauta og aðreina við gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilstaðavegar. Samtals er þetta milljarður til viðbótar á höfuðborgarsvæðið.

Stærsta viðbótarframlagið til landsbyggðarinnar er 200 milljónir til lagfæringar vega að Dettifossi, en áður hafði verið gert ráð fyrir 140 milljónum í þessa framkvæmd. Þá verða 100 milljónir settar í vegagerð á Fróðárheiði, 50 milljónir til breytinga á aðkomuleið þjóðvegarins inn á Akranes og aðrar 50 milljónir í Miðfjarðarveg.

Einnig verða settar 70 milljónir til hafnarframkvæmda á Rifi strax á næsta ári og aðrar 70 milljónir til dýpkunar á Vopnafjarðarhöfn og 60 milljónir til stækkunar tollstöðvarinnar á Seyðisfirði á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×