Innlent

Landsvirkjun hagnast um rúmlega 3,5 milljarða

MYND/Vísir

Landsvirkjun hagnaðist um rúma 3,5 milljarðar króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningi sem birtur er í dag á vef Kauphallar Íslands. Hagnaður fyrirtækisins minnkaði um nærri 2,8 milljarða á milli ára en hann nam um 6,3 milljörðum árið 2005. 

Í árslok 2006 námu heildareignir fyrirtækisins 243,2 milljörðum króna og jukust um rúmlega 60 milljarða króna frá árinu 2005. Rekstartekjur Landsvirkjunar jukust um nærri sex milljarða króna milli ára en það má að verulegu leyti rekja til hækkunar á orkuverði til stóriðju.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu rúmum 26 milljörðum króna sem skýrist aðallega af gengistapi af langtímalánum eftir því sem segir í tilkynningu Landsvirkjunar. Gengistapið skýrist aðallega af lækkun á gengi íslensku krónunnar á árinu.

Horfur um rekstur Landsvirkjunar fyrir árið 2007 eru sagðar góðar og er meðal annars bent á að Fljótsdalsstöð verður tekin í notkun á árinu og munu tekjur af raforkusölu til stóriðju auka heildartekjur fyrirtækisins umtalsvert. Gengisþróun muni þó eftir sem áður ráða miklu um afkomu ársins. Þá hyggur Landsvirkjun á útrás með dótturfélaginu Landsvirkjun Invest ehf. en gert er ráð fyrir að hlutafé fyrirtækisins verði fjórir milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×