Innlent

Fá sex prósenta launahækkun á fyrstu mánuðum næsta árs

MYND/E.Ól

Samkomulag náðist í gær milli Félags grunnskólakennara og Launanefndar sveitarfélaga í kjaradeilunni sem staðið hefur yfir síðustu mánuði. Samkomulagið þýðir að núgildandi kjarasamningur stendur til maíloka 2008 en kennarar höfðu hótað að segja honum upp um næstu áramót ef ekki semdist.

Félag grunnskólakennara og Launanefnd sveitarfélaga hafa síðan í ágúst í fyrra setið um 20 fundi þar sem rætt hefur verið um endurskoðunarákvæði í kjarasamningi kennara. Vildu kennarar að laun þeirra yrðu leiðrétt í samræmi við verðbólgu og launabreytingar hjá fjölmörgum öðrum launastéttum en það steytti á því hversu mikla launaleiðréttingu kennarar ættu að fá.

Deiluaðilar hafa fundað með ríkissáttasemjara síðan í janúar vegna málsins en hann lagði fram tillögu á fundi í gær sem báðir féllust á. Í henni felst að kennarar fá 30 þúsund króna eingreiðslu 1. maí næstkomandi og að laun kennara hækki um þrú prósent um næstu áramót í stað 2,25 prósenta en síðarnefndu hækkunina hefðu kennarar ekki fengið ef samningnum hefði verið sagt upp um næstu áramót.

Auk þessa hækka allir kennarar einn launaflokk 1. mars á næsta ári en kjarasamningurinn. Samkvæmt útreikningum félags grunnskólakennara þýðir þetta að laun kennara hækka um sex prósent á fyrstu fimm mánuðum næsta árs.

Um leið og samið var í gær var ákveðið að ráðast í vinnu um framtíðarsýn og leiðir til jákvæðrar skólaþróunar auk þess sem unnið verður að því semja nýjan kjarasamning sem tekur við þegar núgildandi samningur rennur út 31. maí 2008.

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir að lengra hafi ekki verið komist í samningaviðræðunum. Launanefndin hafi ekki haft áhuga á að skipuð yrði úrskurðarnefnd í málinu eins og lagt hafi verið til en aðilar hafi þurft að vera sammáala um það. Því hafi eina leiðin verið sú að semja eða segja upp samningnum frá og með áramótum.

Ólafur leggur áherslu á að kennarar fái um sex prósenta launahækkun á fyrstu mánuðum næsta árs með því að núgildandi samningur gildi fram á vorið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×